Fara í aðalinnihald
Litli drengurinn minn er barasta orðinn 6 ára! Við héldum svaka afmælisveislu á laugardeginum fyrir afmælið hans. Veislan heppnaðist æðislega vel. Við vorum doldið óviss hvernig tækist að blanda saman þessum örfáu Svíum sem við þekkjum með öllum Íslendingunum en það var ekkert vandamál. Fannar var svolítið ringlaður í byrjun og talaði íslensku við sænsku strákana og fattaði ekkert hvers vegna þeir skildu ekkert.... en áður en við vissum af voru þeir allir farnir að leika sér á sænsku. Veislan byrjaði klukkan tvö og fóru þeir seinustu ekki fyrr en um sex leytið. Við vorum því mjög ánægð yfir hve fólk var rólegt og virtist njóta veitinganna og félagsskapsins vel.
Nú er sumarfríið búið hjá Helga mínum en hann er búinn að vinna í eina viku eftir frí. Fannar hefur aðeins hitt Símon í vikunni... bæði farið heim til hans og svo hefur Símon líka komið yfir til okkar. Þeir byrja svo í skólanum á fimmtudaginn næsta. Við eigum eftir að græja smotterí fyrir skólann en að mestu er þetta nú komið. Hann fékk skólatösku í afmælisgjöf frá ömmu og afa í Keflavík. Pennaveski fékk hann líka í afmælisgjöf en það var frá Eyrúnu og svo gáfum við honum íþróttaskó til að fara með í leikfimi. Núna vantar hann bara möppu og svo eiga börnin líka að koma með sessu til að sitja á úti svo bossinn verði ekki kaldur og blautur.... börnin fara nefnilega mikið í skógarferðir, á skauta og þess háttar.
Nú er komið á hreint hver verður næsti gestur okkar. Arnar matarklúbbsmeðlimur og vinur okkar ætlar að vera hjá okkur um næstu helgi. Kannski við eldum einhvern góðan mat handa honum enda skilst mér að honum veiti ekki af nokkrum vænum kaloríum ;) Svo er búið að bjóða okkur í hinar árlegu "kräftskiva" næsta laugardag og fær hann auðvitað að fljóta með. Þar verður væntanlega borðað (mismikið) af kröbbum og drukkið (mismikið) áfengi.
Þetta blogg er nú orðið allt of langt og kveð ég því í bili.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Góða skemmtun með Arnari, efast ekki um að hann fái eitthvað gott í gogginn sinn.

Þetta er ótrúlegt með þessi sex ára "kríli". Mikil skólaspenna í gangi. Við eigum eftir að kaupa eitthvað líka. Skólatöskur komnar í hús og mest af litum.

Bloggið þitt var ekkert langt, bara gaman að lesa ;-)
Kv Munda
Arnar Thor sagði…
Hlakka geðveikt til. áætluð mæting er 18:40 á fimmtudag...Það væri ágætt að byrja á einhverju léttu eins og kannski hreindýri eða önd. Annars vil ég nú ekki að þið hafið mikið fyrir mér. Helstu rauðvínstegundir sem ég hef ekki ofnæmi fyrir eru Chateau du Sjassele ...

Sjáumst.
kv.

Arnar Thor
Nafnlaus sagði…
Hæ hæ
Fær Fannar sendar bækurnar frá umferðaráði?
Var að taka aðeins til og sá þá að ég á 3 af hverri, spuring hvort þið viljið ef hann fær ekki???
KV Munda
Sara sagði…
Nei hann fær þær ekki lengur. Við viljum endilega taka við einu eintaki :)

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólaskapið komið Hér er búið að snjóa í alla nótt og snjóar enn..... þar að auki alveg blankalogn þannig að það getur eiginlega ekki orðið jólalegra. Fannar er nú þegar búinn að henda tveimur snjóboltum í mig og var planið hans í dag að búa til fleiri. Það verður örugglega rosa stuð hjá honum í leikskólanum í dag :) Þetta barn stækkar svo mikið að hann er löngu vaxinn upp úr snjóbuxunum sínum síðan í fyrra vetur.... þær ná honum næstum upp á miðja kálfa! Það er sem sagt kominn tími til að við foreldrarnir kaupum handa honum nýjar kuldabuxur svo hann sé nú almennilega klæddur drengurinn.... ekki seinna vænna nú þegar snjórinn er kominn. Helgi var á næturvakt í nótt. Fannar tilkynnti við kvöldmatarborðið í gær að það væri bara gott að pabbi sinn væri að fara að vinna. Hann veit nefnilega að hann fær að kúra hjá mömmu sinni þegar pabbi hans er á vakt (þó hann hafi ekki nefnt það í framhaldinu :o)
Aftur mætt á bloggið! Þá er Íslandsförinni lokið og ég hef nógan tíma til að sitja yfir þessu bloggi aftur. Það var nú mjög gott að koma heim aftur en þó líka doldið einmanalegt þegar ég fór með Fannar á leikskólann í gær..... aftur orðin ein! Edda vinkona er komin á fullt í vinnu þannig að það er ekki hægt að bögga hana lengur yfir daginn.... það er þó stutt í nýja fjölskyldumeðliminn þannig að það verður bráðum nóg að gera. Helgi er á fullu núna að pæla í bílakaupum.... ég kann ekkert á þessi mál þannig að hann grúskar einn í þessu - hann sýnir mér samt myndir bara svona til að fá samþykki mitt hehehe. Skilyrðin eru þó þau að við kaupum sjálfskiptan station bíl með loftkælingu. Erum með einn Opel Omega í sigtinu núna og fer hann líklega að skoða hann á morgunn.... spennandi! Það er strax búið að bóka gistipláss hjá okkur í febrúar.... endalaus gestagangur hjá okkur :) en það eru Raggi og Munda sem ætla að kíkja til okkar. Hlökkum að sjálfsögðu til að fá þau í heimsókn....
Ég fór og heimsótti Huddinge sjukhus í gær. Fékk að fylgja eftir íslenskum sjúkraþjálfara sem vinnur þar. Hún gaf mér upp góðar upplýsingar um hvernig ég þarf að bera mig að til að fá löggildingu hér í Svíþjóð og svo erum við Edda búnar að vesenast smá í þeim málum nú í dag. Frábær tilfinning að þessir hlutir séu komnir í gang. Af því að ég er nú að tala um sjúkraþjálfun þá vil ég óska sjúkraþjálfaranum og vinkonu minni - henni Rósu - innilega til hamingju með daginn .... ég veit að hún er tryggur lesandi þessarar síðu. Nú er akkúrat vika þangað til mamma, pabbi, Guðlaug og Svenni koma í heimsókn.... mikil tilhlökkun í gangi hér á þessu heimili Að öðru leyti er ég búin að vera alveg farlama af harðsperrum undanfarna tvo daga. Hef ekki getað gengið upp og niður tröppur án þess að að finna gríðarlega til... meira að segja átt erfitt með að setjast á klósettið!!!!!!